6.8.09

Armed and dangerous

Penn og Teller reyndu að færa rök fyrir því í Bullshitti gærkvöldsins að almenn og útbreidd byssueign væri besta vörnin gegn aðsteðjandi hættum. Þeir hafa oft verið meira sannfærandi. En sérstaklega voru þeir hrifnir af fælingarmætti falinna vopna. Konur gætu nú með leyfi alrikisvaldsins gargað upp að þær væru vopnaðar þegar kynferðisafbrotamenn þröngvuðu þeim inn í bás á kvennaklósettinu. Ég er ekki viss um að byssa sé endilega málið. Tvö af flottustu bardagaatriðum hasarmyndanna enda með því að hetjan gatar óþokkann með venjulegum kúlupenna. Ég geng iðulega með kúlupenna á mér og get þakkað Jason Bourne og Martin Blank að ég er vel varinn gegn árásum misyndismanna.

28.7.09

Svartur

Sífrandi sjálfsmeðaumkun hittir fyrir tilgerðarlíkingu af verstu sort. Síðhærðir Seattlerokkarar gleyma sér í bólugröfnum gelgjuham. Óó hvað allt er vonlaust.

Úr Black með Pearl Jam:
I know someday you'll have a beautiful life, I know you'll be a star
In somebody else's sky, but why, why, why
Can't it be, can't it be mine

20.5.09

Nazistapíka

,,Ég er með nazistapíku.” Hún leit út fyrir að geta verið launbarn Cameron Diaz og rauðhærðu stelpunnar úr The 70’s Show ef önnur þeirra hefði æxlunarfæri karlmanns eða drottinn hefði skipt sér af getnaðinum, en slíkt er ekki án fordæma ef trúa má gömlum bókum. Röddin var glettin og ófeimin. Það var sunnudagur í Sundhöllinni og Jóhanna Guðrún var nýbúin að syngja í höfn annað sætið. Kaldari pottur þeirra tveggja heitu var stappfullur af karlmönnum merkilegt nokk og í miðjum hópi samnemenda sinna úr háskólanum sagði ung kona frá hrakförum sínum. Hún hafði verið að raka sig að neðan og ætlað að skilja eftir beina hárrönd til að vera sér til prýðis. ,,Ég er bara svo léleg að teikna að hún kom öll skökk út eins og elding.” Ég gat ekki annað en vorkennt henni sem vildi bara gera sig fína. Sjálfur hef ég hellt kaffi yfir hvíta skyrtu á mannamóti. Hún getur ekki sýnt sig svona meðal fólks. Það væri bara pínlegt.

2.4.09

Hefur þú það sem þarf til þess að sigra?

Beauty Camp Weekend er skemmtilegur sjónvarpsþáttur sem er að fara í loftið á Íslandi í samvinnu við DynamoModels, Borgartúni 16. Auglýst var í Fréttablaðinu í dag eftir 15 kröftugum einstaklingum til að taka þátt í krefjandi keppni um að umbreyta útlitinu. Takmarkið virðist vera að líta út eins og sköllóttur fimmtugur kall í rósaskyrtu. Meðal keppnisgreina má finna Enema Puta, Detox Extreme, Toothpicking Basics, Colonoscopy, Libido Acupressure, Manicure Testiquele og Nail Removal Renisance. Án efa verður erfitt að velja milli áhugasamra einstaklinga sem vilja standa sig vel í þessum greinum fyrir framan alþjóð.
Besta aprílgabb ever :-D
Pés: músiggtibbs dagsins: Martha Wainwright - Ball and Chain

27.6.08

Trúverðugleiki

Það er eitthvað bipolar við þetta samfélag. Ef þú ert ekki með þá ertu á móti. Þegar vindáttin breytist ertu á móti en ekki með. Hún breytist reglulega. Víkingar sem sóttu gull í greipar eru ábyrgðarlausir spákaupmenn áður en varir. Almenn skynsemi og hagsmunir heildarinnar víkja reglulega fyrir bestuvinaklappáherðarnar sem viðgangast fyrir galopnum tjöldum. Þegar fíflið er í hinu liðinu er um að gera að spara ekki skotin heldur draga til saka fyrir alla muni þó að litlu skili. Þeir sem eiga upp á pallborðið krýna sig sem kónga. BiggiMaus dirfist að segja eitthvað kryptískt um Bubba. Bubba sjálfan. Hvernig dirfist hann? Enda gerir hann sig lítinn þegar sá stóri gerir sig stærri og grípur til vopna og verja. Enginn skal setja sig upp á móti mónarkíinu. Kóngurinn fær líka fullt hús stiga og dynjandi klapp á bakið frá skjálfandi lófum gagnrýnenda sem bara lofa. Er nýja platan mesta þrekvirki íslenskrar og hugsanlega útlendrar tónlistarsögu? Ég hef bara rennt henni einu sinni í gegn og platan er allgóð, en herregud! Væri hægt að sjá málefnalega gagnrýni einu sinni án eftirmála? Hér fá allir góða krítík frá gagnrýnendum sem ýmist eru fullir þrælsótta eða aumingjagóðir. Er til of mikils mælst að óska eftir smá perspektívi á þessu landi?

3.4.07

Making love with his ego

Hver skyldu vera merkilegustu coverlög mannkynssögunnar fór ég að spá í á færibandinu til vinnunnar í dag. Þau eru nokkur góð, Nick Cave och Johnny Cash hafa gert slatta og svo hafa hinir og þessir tekið sig til og túlkað annarra smelli á nýstárlegan hátt. Við nánari hugsun varð mér ljóst að Bítlalög hafa oft verið tekin vel og tek ég saman i kippu fimm af þeim bestu hér:
Getting better - The Wedding Present
With a little help from my friends – Joe Cocker
Happiness is a warm gun – The Breeders
In my life – Johnny Cash
Helter skelter – U2
Og hér eru nokkur svakafín cover að auki fyrir coveráhugamanninn sem á allt:
I’m so lonesome I could cry - Cowboy Junkies (Hank Williams)
Voulez vous - Ham (ABBA)
Cactus - David Bowie (Pixies)
Ziggy Stardust – Bauhaus (David Bowie)
Hallelujah – Jeff Buckley (Leonard Cohen)
California Uber Alles – Disposable Heroes of Hiphoprisy (Dead Kennedys)
Motorcycle Mama – The Sugarcubes (Sailcat)
Vantar eitthvað á listann? Ósammála valinu? Birtu álit!

24.2.07

Músikmanía

Ég er orðinn hundþreyttur á þessu Svíþjóðarlíferni og langar mest af öllu að labba frá öllu í slómó með allt í bál og brandi bakvið mig og einstaka bíl sem þeytist 20 metra upp í loft. Það er sennilega vegna þessa innilega leiða sem ég hef farið hamförum við að eignast nýja tónlist. Í gær labbaði ég inn í notaðraplötubúð og út með ekki minna en fjórar plötur sem fengust reyndar á einstökum kjörum, tíkall sænskar. Leyndist þar djásnið Maverick A Strike með Finley Quaye. Held að ég sé að fá inn nýjar víddir í minn tónlistarsmekk. Hef hlustað töluvert á John Legend sem er sálar r&b flytjandi, en Quaye er sálar reggí flytjandi. Hreint ekki vitlaus. Ef einhver vill andmæla því vil ég bara benda á lagið Sunday Shining. Að auki fékk ég þar Köld eru kvennaráð með Kolrössu krókríðandi nánast alveg óspilaða merkilegt nokk. Nú er ég svo kominn úr bæjarleiðangri með 10 plötur í farangrinum. Sex fékk ég að láni á bókasafninu: Dummy með Portishead (búinn að týna gamla eintakinu), Lesser Matters með The Radio Dept. sem á að vera svakafínt sænskt indí, Synchronicity með The Police sem ég á að vísu á vínyl, nýju plötuna með Moneybrother sem er á sænsku og heitir því Pengabrorsan, Dying to say this to you með The Sounds sem er hæpað sænskt band og svo eina plötu með Peter Bjorn and John, samt ekki sú með Young Folks. Ekki ónýtt? En minn var ekki saddur því að núna eru útsölurnar í gangi og þar fékk hann ekki minni stórvirki á slikk en Rio með Duran Duran, Vision Thing með The Sisters of Mercy og The Best of A Flock of Seagulls (frekar eitís í skapinu) og Begin to Hope með Regina Spektor. Veit varla hvar ég á að byrja næst því að fyrsta valið var gefið. A Flock of Seagulls er últimata eitíssveitin, Casíó syntar galore. Lag dagsins er því Wishing (I had a Picture of You). Lag allra tíma.

27.9.06

Komdu aftur Zlatan

Agalegt fyrir íslenska landsliðið að snillingurinn Zlatan sjái sér ekki fært af eiginhagsmunaástæðum og almennum leiðindum að leika með sænska landsliðinu gegn Íslandi í haust. Maðurinn er með eindæmum latur og uppfullur af sjálfum sér og engri vörn til ama. Komst rétt áðan einn í gegn með bara löggilt þýskt gamalmenni á milli stórutáar og netsins. Raunhæfir möguleikar á marki? Nánast öngvir því að þetta var Zlatan. Fyrir nánast alla aðra og áttræða ömmu mína? 75-95%. Mark? Ekki að ræða það.

14.8.06

Fákur

Jamm og já. Viðbrögðin við síðastliðnum innsendingum sýna að gestum hefur fækkað frá einumoghálfum til núll. Varla mælanlegt. Minns keypti reiðfák á laugardag og hugsaði sér gott til glóðarinnar enda með eindæmum traust dæmi. Þá tóku sænskir guðir í taumana sem þeir gera oft og dembdu niður monsúnrigningu í fyrsta skipti í sjöhundruðogþrettán ár (fjórtándagaþrjátímaogfimmsekúndur). Bíð eftir að fararskjótinn þorni svo að buxnarassinn haldist þurr að mestu. Þangað til tippsa ég um lag sem hlustandi á: Fujiya & Miyagi - Ankle injuries. Hei finndu sjálf(ur).

9.8.06

Músiggblogg

Ég tók ákvörðun hér um sistens að bjóða upp á músigg með hverri færslu. Hvað er betur til þess fallið að lokka lesendur en þeir fagrir tónar sem umlykja undirritaðan á hverri stundu? Hins vegar er minns svo ótæknilega innréttaður að vita ei hvurnig á að fá hljóðdæmin á síðuna. Bíð ráða frá vitrari mönnum en þangað til verður lesandinn að fá tipps gömul og ný en öll góð án dæmis:
Sufjan Stevens - Jacksonville af Illinoise
Sufjan Stevens - Vito's ordination song af Michican. Ég gæti grátið.
Pixies - I've been waiting for you af B-sides
David Bowie - I've been waiting for you af Heathen. Cactus er kannski ennþá betra Pixies cover. Besta Bowie platan í 25 ár.
The Band - The long black veil af Music from big pink
Nick Cave - The long black veil af Kicking against the pricks. Flott cover af coverplötunni.
The Decemberists -The Infanta. Gott gobbídígobb í trommunum sem hestafólk myndu kalla brokk.

31.7.06

Heimalingur

Genginn aftur eftir mánaðardvöl á landinu kalda. Rok, kuldi og rigning eins og vera ber. Það er gott að vera á Íslandi. Einhvernveginn finns mér eins og að sumarið eigi ennþá inni tvö golfkvöld og eina misheppnaða veiði, en betlarar fá ekki að velja. Ég ylja mér þó við minningarnar sem ég bar með mér ásamt fullt af drasli sem ég hafði geymt í bílskúrnum hjá pabba. Þar á meðal leyndust ýmis textabrot sem ég hafði skrifað í fyrra lífi. Sumt rusl nema hvað, en annað dálítið sniðugt. Þar á meðal díalóg sem ég á örugglega eftir að geta notað einhvers staðar og þessi kviðlingur sem ég samdi að sögn í fjórða bekk. Hvað segist? Efni í stórskáld?? Nýr Mattías kominn fram á sviðið???

Geysist að mér þarmaþemba
þú ert eina ástin mín
Þú skalt þínar hærur kemba
þrjóska litla fyllisvín.

18.6.06

Góðborgari

Hér sjáið þið mann sem einn síns liðs keppist við að bæta Svíþjóð. Það er ekki lengra síðan en í dag að ég kom að grátandi stúlkugreyi sem hafði týnt mömmu sinni og hafði bara bansgsa að halla sér upp að. Svo raunagóður sem ég er fylgdi ég henni á rétta brautarstöð svo að hún gæti tekið lestina heim. Ekki er heldur langt síðan að ég stökk til og opnaði með handafli strætódyr sem höfðu lokast á kvensnift eina og ætluðu að kremja til örorku. Ekkert kemur gratís í þessum heimi og ég reikna með að verða sæmdur orðu af einhverju tæi fyrir manngæskuna. Sennilega er hún bara í póstinum.

12.6.06

Grýla er dauð

Betri heimsókn er ekki hægt að hugsa sér. Fyrir leikinn sást glitta í möguleikann að kreista fram sigur. Landsliðið er enda gott um þessar mundir og Svíarnir eru ekki búnir að finna sig eftir að Faxi og félagar komust á eftirlaun. Fyrstu mínúturnar boðuðu þó ekki gott; Genzel lokaði markinu, læsti á eftir sér og sporðrenndi lyklinum. Einhver hafði þó tekið með sér dínamít og svo var boðið upp á besta leik sem íslenska landsliðið hefur leikið nokkru sinni. Nánast engin mistök allan leikinn, engin hræðsla, ekkert fall eftir hetjulega baráttu í 45 mínútur. Óli Stefáns var ekki í stuði en allir aðrir voru á ginsenghrossasterablöndu og voru óstöðvandi. Aldrei hefur svona sigurvilji sést í íslensku landsliði og ef einhver hefði haft vit á að gefa Óla dollu af Red Bull væri maður ennþá á svifi eins og helíumblaðra yfir Globen. Núna er Grýla dauð og þá er bara að urða hræið á Íslandi.

29.5.06

Heimsókn

Bambigutti gerði stutt stopp og lét sér nægja að svelgja einum bjór og svörtum kaffibolla á versta sóðapöbb sem Stokkhólmur hefur uppá að bjóða og sporðrenndi síðan hálfum borgara á Burger King hinum megin við götuna en lét frönskurnar eiga sig. Eftir að hafa drukkið upp vodkabyrgðir Moskvuborgar dagana á undan var guttinn ekki reiðubúinn að gera annað en að leggjast marflatur útaf á flugstöðinni þennan prýðisfína sunnudag í maí. Því var honum snarlega skóflað upp í næstu áætlunarbifreið og sendur af stað aðra leið.