29.3.05

Taxi

Leigubílsstjórar í Riga eru meindýr sem kurteiz vildi ekki bjóða bólfestu á nokkrum manni. Öll brögð eru leyfileg við svik og pretti sem bitnar á bláeygðum gestum. Fyrst lendir undirritaður og frú undirritaður í klónum á skrattakolli sem hefur enga tungu aðra en sína klofnu rússnesku. Hann hefur með brögðum náð sér í verðmæli sem mælir verð ríflegar en ella þegar farþegar gjóa augum á mannvirki handan við bílrúðu. Keyrir svo burt í hendingskasti með illa fenginn aur og hefur ekki fyrir því að loka afturlúgu. Svo er það hinn þrjóturinn sem kann bara að rífa kjaft og heimtar alls konar aukapening sem ekki var um samið fyrirfram og hótar með löggu þegar maldað er í mó. Að skilnaði gefur sá grái tilbaka litháska mynt í skjóli myrkurs. Varist þann drýsil börnin góð.

24.3.05

Rigapáskar

Þegar maður er kusk í nafla alheimsins er stutt upp á belg þó að langt sé út á nára. Því gref ég mig upp úr þeirri holu sem er Stokkhólmur og held til Riga með spúsu. Stafræn gögn af ýmsu tæi eru þar seld fyrir slikk og hafa sjarmerandi togkraft á undirritaðan þar eð stjórnvöld sænsk veifa ávítandi fingri að þeim sem dirfast hlaða heiminum inn í stofu. Jón Kurteiz veifar því á móti og kastar kossum af þilfari til þeirra sem vilja honum og hans vel.

21.3.05

Þreyta

Nú er ég hættur að sofa. Þetta var ekki meðvituð ákvörðun heldur hefur líkaminn gert uppreisn með því að hækka stressþröskulda svo að augun haldast opin á óguðlegum tímum. Nú reyni ég að berjast á móti með því að dæla í hann kaffi í lítravís svo að upp úr flæðir. Það er allt í járnum og ekki má á milli sjá hver fer með sigurlaunin.

18.3.05

Fyrsta blogg

Hana. Þá er maður kominn fyrir almennings augu. Næsta skref er 24 tíma netmyndavél frá baðherberginu og þátttaka í Temptation Island.