27.7.05

(Einskonar) heimkoma

Kominn aftur búinn á sál og líkama eftir að hafa reynt að þurrausa Eystrasaltið ásamt Siggamus. Það er lítið eftir allavega. Riga var flott, fínasta veður oftast og velformað kvenfólk sem kepptist við ásamt Aldaris að gera ferðalöngum lífið gott. Reynt var að hafa lítið fyrir stafni nema að skipta um hótel hverja nótt. Svo kvöddum við með heimsókn á svakalegasta næturklúbb í vestrænum heimi sem við viljum halda fyrir okkur sjálfa og næstu heimsókn takk fyrir mig. Fimm tíma rútuferð til Tallinn daginn eftir var ekki það sem læknirinn hafði skrifað upp á og kjassandi unglingar með Douglas Adams í næsta stól riðu mér næstum að fullu. Enda tók tímann sinn að komast upp í annan gír í Tallinn. Þegar Valli baar var svo fundinn var ljóst að Riga hafði fengið alvarlega samkeppni. Tvö kvöld með eistnesku kvenfólki, hollenskum eiginmönnum, brjáluðum einförum og Millimallikas. Verður það betra? Ef versti tremminn fer á braut gæti svo farið að búllan verði heimsótt á ný. Ertu til Siggimus?

13.7.05

Júlí tvö

Billegt rauðvín í hægri greip og reiðubúinn að rita langþráð framhald júlísögunnar góðu: Finnland OG Lettland spyr fólk forviða. Hvaða brjálæði hefur gripið drenginn? Er hann loksins orðinn ær? Því er nú öðru farið kæri lesandi. Til þess að geta hitt á heimshornaflakkarann siggamus greip ég tangarhald á ferðaskrifstofu á netinu og pantaði miða til Riga. En þar sem að makkarnir eru þekktir fyrir svall við endurfundi neyðist ég til að láta frá mér dóttur kærri í hendur móðurforeldra sem nú eru staddir í austurbotninum finnska. Öll bein sæti voru horfin undir aðra botna svo að við feðginin leggjum í mestu svaðilför á föstudag. Fyrst vöknum við klukkan fjögur um morguninn sem flytur hugann til ættjarðarinnar. Flogið er klukkan sjö til Tampere og þaðan er lestin tekin til Vaasa og varningnum dýrmæta skilað af mér. Næsta lest tilbaka og svo er flogið til Riga frá Tampere, þökk sé Ryanair, seint um kvöld. Örþreyttur lendi ég svo hálftuttuguogþrjú og stefni beina leið á siggamus sem bíður í ofvæni með kalda kollu og handfylli af hansastoðum.

12.7.05

Júlí

Júlí er að verða hálfnaður og sumarfríið líka. Maria er í Danmörku svo að Saga hefur verið hjá mér fyrir utan nokkra daga sem hún var hjá móðurforeldrunum vegna tíðra heimsókna hjá undirrituðum. Það hefur gengið mjög vel og ég hef notið þess að vera með henni. Ég óttaðist svolítið að það yrði erfitt fyrir okkur bæði að vera svona mikið saman en það gengur ótrúlega vel. Mervi og Sakari kærasti hennar dvöldust á gólfinu í stofunni í tvær nætur. Hingað til hafa gestir fengið að liggja í appelsínugula hlussusófanum en ég ákvað í stundarbrjálæði að fjárfesta í dýnu sem blásin er upp af mótor. Allir segja að þetta sé undradýna enda amerísk. Bandaríkjamenn kunna að dekra við sjálfa sig það verður ekki af þeim tekið. Við fórum þrjú á Accelerator, rokkhátíð sem haldin er árlega og er þekkt fyrir að stóla á nýjar efnilegar hljómsveitir sem hafa nýlega gefið út fyrstu plötuna. Til þess að fá fleiri til að kaupa miða er svo boðið inn þekktari nöfnum að auki. Ég sá Stars, Bloc Party, Smog, Colleen, Teenage Fanclub, Jenny Wilson og Sonic Youth meira eða minna. Flott hátíð. Svo kom Mæja systir og gaf mér sólarhring til að sýna henni stórborgina. Ég held að það hafi gengið bærilega. Mér tókst að fara bæði með hana og Mervi á smá siglingu um skerjagarðinn. Þeir sem vilja heimsækja mig í sumar geta fengið sömu meðhöndlun. Óskar er mögulega hættur við að koma við enda víðförull drengurinn og ekki skrítið að hann þreytist á flakkinu. Ég er enda búinn að festa mér miða til Finnlands og Lettlands á föstudag. Hvers vegna? Það er efni næstu færslu.

4.7.05

Eplið og eikin

Ég hafði hent Sögu út með golfkylfu og kúlu í blíðviðrinu. Korteri seinna heyri ég hana æpa upp og hleyp út í dyr. Geri ráð fyrir að hún hefði klemmt sig á útidyrahurðinni sem er með pumpu, en sem hún á að ráða við. Þegar ég kem fram starir hún á hurðina og svo lemur hún snöggt í rúðuna með kylfunni. Rúðan brotnar eins og vera ber. Þegar við vorum búin að jafna okkur, búin að skamma og taka á móti skömmum, fæ ég skýringuna á ofbeldinu. Þegar hún ætlaði að fara inn eftir velheppnaða æfingu sat geitungur á hurðinni. Hún ætlaði að berja hann niður til að komast áfram. Gaman að sjá að hún er hvatvís eins og ættin.